Mannfjöldaspá Byggðastofnunar niður á sveitarfélög

Eitt af hlutverkum Byggðastofnunar er að fylgjast með þróun byggðar á Íslandi. Í því felst að gera áætlanir um framtíðarhorfur ýmissa lykilþátta er varða búsetu- og atvinnuskilyrði byggðarlaga. Mannfjöldaþróun og aldurssamsetning íbúa eru dæmi um þætti sem Byggðastofnun hefur litið til við greiningu á búsetuskilyrðum. Hugmyndir um mögulega þróun þessara þátta fram í tímann gætu því gefið mikilvægar upplýsingar um framtíðarhorfur búsetu.

Byggðastofnun gerði um árabil mannfjöldaspár fyrir byggðarlög og minni svæði á Íslandi. Sú vinna lagðist hins vegar af samfara breytingum á innviðum stofnunarinnar um síðustu aldamót en nú hefur þráðurinn verið tekinn upp á ný og í tvígang hafa verið gefnar út mannfjöldaspár minni svæða (sjá má skýrslur um mannfjöldaspá Byggðastofnunar frá mars 2018 og september 2019 undir Útgefið efni á heimasíðu stofnunarinnar).

Í þessum mannfjöldaspám er miðspá Hagstofu Íslands brotin niður á 2 meginsvæði, 8 landshluta, 22 kjarnasvæði, 27 hagsvæði og sérhvert sveitarfélag. Mannfjöldalíkan Byggðastofnunar er slembilíkan og notar frjósemis- og dánarhlutföll ásamt búferlaflutningum fyrir inntaksgögn sem öll eru fengin frá Hagstofu Íslands. Þetta líkan notast við hlutlægar aðferðir og byggir eingöngu á sögulegum gögnum, þ.e. engar forsendur eru fyrirfram gefnar og hvergi er notast við sérfræðiálit. Mannfjöldalíkan Byggðastofnunar byggir því á því að fram haldi sem horfir. Niðurstöður mannfjöldaspárinnar eru settar fram sem meðaltal og 80% spábil 10.000 slembiúrtaka mannfjöldalíkansins og skalað við miðspá Hagstofu Íslands.

Í grófum dráttum gefa niðurstöðurnar til kynna að meðalaldur muni hækka og einnig er útlit fyrir að fólki haldi áfram að fjölga á höfuðborgarsvæðinu með stöðugri fækkun víða á landsbyggðunum. Hafa ber í huga að óvissa þessarar mannfjöldaspár er töluverð og þó að hún geti gefið þokkalega mynd af mannfjöldaþróun til skemmri tíma, t.d. 15 ára, verður að taka niðurstöðum til lengri tíma með fyrirvara.

Hér fyrir neðan er hægt að skoða myndræna framsetningu mannfjöldaþróunar fyrir 1. janúar ár hvert frá 1998 til 2021 ásamt framtíðarspá frá 2022 til 2070. Annars vegar er hægt að skoða mannfjölda yfir tímabilið eftir kyni, aldri og spásvæði og hins vegar er hægt að skoða kynjaskipta aldursdreifingu hvers árs, svokallaðan mannfjöldapíramída.

Leiðbeiningar

Skilgreina svæði, kyn og aldursbil